Hönnun og smíði í aðalnámskrá.

Einar Kristján Hilmarsson
október 2011

Ný aðalnámskrá grunnskóla tók gildi í maí s.l. og er hún birt á vefsíðu menntamálaráðuneytisins. Ný menntastefna er fyrirsögn fréttar ráðuneytisins um hina nýju námskrá og þar er gerð grein fyrir breyttum áherslum. Þetta er fróðlegt fyrir kennara að kynna sér og einnig fréttatilkynningu til grunnskóla frá 6.9. 2011. Námskráin sjálf er þó aðalatriðið og eru þeir kennarar sem kenna verklegar greinar hvattir til þess að kynna sér hana vel. Þetta er almenni hlutinn en áætlað er að námskrár fyrir hvert námssvið komi út á næsta ári.

Tvær breytingar hafa orðið á námskránni sem varða hönnunar og smíðakennslu og rétt er að nefna. Sú fyrri er að nú eru list- og verkgreinar settar saman í námssvið og er þar með lokið stuttu en merkilegu sjálfstæði hönnunar og smíða í námskránni. Í skýringum með viðmiðunarstundaskrá í kafla 8.5 er þó skýrt tekið fram að námssviðið skiptist í tvö svið, listgreinar og verkgreinar og hafa þau jafnt vægi innan heildartímans. Þetta er mikilvægt að smíðakennarar skoði vel og standi vörð um innan síns skóla.

Til listgreina teljast: tónmennt, sjónlistir (t.d. myndmennt) og sviðslistir (t.d. leiklist og dans) en til verkgreina teljast: hönnun og smíði, textílmennt og heimilisfræði. List- og verkgreinar eiga að fá 2080 mínútur á viku í 1. - 10. bekk og þar af verkgreinarnar þrjár 1040 mínútur eða 346,66 , mínútur á hverja grein. Þar sem smíði er víðast ekki kennd í 9. - 10. bekk nema í vali, þá skiptist þessi tími á 8 námsár og sumsstaðar minna því sumir skólar kenna ekki smíði fyrr en í 2. bekk og enn aðrir ekki fyrr en í 4. bekk. Ef kennt er í 1. - 8. bekk þá ætti hver nemandi að fá 43,3 (346,66/8=43,33) mínútur á viku allan veturinn hvern ár eða rúmlega eina kennslustund, tvær á viku hálfan veturinn. Val í 9. og 10. bekk er tekið af sérstökum kvóta.

Önnur mikilvæg breyting er að aukin áhersla er lögð á mikilvægi verklegrar kennslu og er það vel því það samræmist 24. gr. laga um grunnskóla þar sem segir í lið g) að í aðalnámskrá skuli m.a. leggja áhreslu á "jafnvægi milli bóklegs og verklegs náms".

Hér verður bent á nokkrar tilvitnanir í námskrána til glöggvunar. Í 4. kafla segir á bls. 23: "Grunnskólum er skylt að mennta öll börn á árangursríkan hátt. Samkvæmt lögum eiga allir nemendur rétt á námi við hæfi í grunnskólum, bæði bóklegu námi, verk- og listnámi og sveitarfélögum er skylt að sjá nemendum fyrir viðeigandi námstækifærum hvernig sem á stendur um atgervi þeirra til líkama og sálar..."

Hér er grunnskólum gert skylt að bjóða upp á verk- og listnám ásamt bóknámi, það þýðir að ekki er heimilt að fella niður kennslu í hönnun og smíði þó stjórnendum detti það í hug til sparnaðar eða til að koma öðru námi að!

Í 5. kafla á bls. 24 segir: "Markmið grunnskóla er samkvæmt lögum tvíþætt. Annars vegar almenn menntun sem stuðlar að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi og hins vegar það hlutverk að búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Í því felst að nemandinn geri sér grein fyrir styrkleikum sínum, bæði þeim sem snúa að fræðilegri þekkingu og ekki síður þeim er snerta verkþekkingu og verklega færni."

Nemendur eiga samkvæmt þessu að gera sér grein fyrir styrkleikum sínum að því er snertir verkþekkingu og verklega færni, þessir þættir eru kenndir í hönnun og smíði, textílmennt og heimilisfræði og augljóslega er átt við að þessar greinar séu allar kenndar. Til að hægt sé að gera sér grein fyrir styrkleikum sínum þarf að takast á við viðfangsefni á fleiri en einu sviði og þannig átta sig á því sem maður er góður í.

Þá segir í 6. kafla bls. 26: "Leggja ber áherslu á að nemendur öðlist sem dýpstan skilning á þeim fyrirbærum sem þeir fást við í námi sínu. Það er m.a. gert með því að leggja áherslu á frjótt, skapandi starf, verklega færni, nýsköpun og frumkvöðlanám þar sem hvatt er til frumkvæðis og sjálfstæðis í vinnubrögðum og hagnýtingu í skólastarfi og daglegu lífi.

Hér er réttilega bent á og ítrekað að djúpur skilningur fæst með því að nálgast og skoða fyrirbæri og þekkingaratriði frá sem flestum hliðum og á sem fjölbreyttastan hátt. Tengja á bóklegt nám verklegu, skapandi starfi t.d. með því að nýta þessa þætti til að styrkja bóklegt, fræðilegt nám. Þessháttar nálgun á ekki að koma í stað hefðbundinna verkgreina heldur sem viðbót. Vinnubrögðum og verkfærum sem lærst hafa í verkgreinum á að beita ásamt öðrum í fræðilegu námi.

Og áfram segir á bls. 26:

Gæta ber þess að jafnvægi sé milli bóklegs náms og verklegs. Bæði hugur og hönd hafa mikilvægu hlutverki að gegna þegar nemandi eflir með sér alhliða þroska. Þess skal gætt að ekki halli á verklegt nám þegar skólastarf er skipulagt. Þetta á bæði við um hlutfall bóklegra og verklegra greina en einnig um vinnulag og viðfangsefni innan hverrar námsgreinar frá upphafi til loka grunnskóla."

Þess skal gætt að ekki halli á verklegt nám þegar skólastarf er skipulagt! Bæði skal kenna verklegar greinar jafnhliða bóklegum og einnig að nálgast hverja námsgrein með verklegum hætti.

Val og valgreinar

Í sambandi við valgreinar er fast kveðið á um að verklegar greinar skuli vera áberandi og allt að helmingur námstíma í vali skuli bundin list- og verktengdu námi.

Í grein 8.3: "Val í námi skal miða að skipulegum undirbúningi fyrir nám í framhaldsskóla og taka mið af undirbúningi fyrir bóknám, starfsmenntun, verknám og list- og tækninám"

og í 8.5 í skýringum við námssvið í viðmiðunarstundaskrá segir:

"Til ráðstöfunar/val: Undir þetta heyra ráðstöfunarstundir skóla, einkum í 1.−7. bekk og val nemenda í 8.−10. bekk. Út frá áhersluþáttum námskrár í lögum skal hafa jafnvægi milli bóklegs náms og verklegs og þess gætt að ekki halli á verklegt nám þegar skólastarf er skipulagt. Það á einnig við um skipulag valnámskeiða. Því er gert ráð fyrir að allt að helmingur valstunda sé bundinn list- og verktengdu námi."

Þetta eru góðar áherslur, en framkvæmt þeirra er þó undir hverjum skóla komið. Eftirlit er ekkert af hálfu ráðuneytisins svo þá er þeirra sem kenna þessar greinar að benda á þetta og hvetja stjórnendur til þess að fara eftir námskránni.

Á næsta ári er svo áætlað að námskrár fyrir hvert svið komi út og þá fáum við að sjá hvernig námskrá í list- og verkgreinum kemur til með að líta út.

 

 Samantekt á þeim köflum aðalnámskrár sem fjalla um verklegt nám

 

------------------------------------
Prentaš af: