Lög FÍS

smidakennari.is Til baka

 

Lög
Félags íslenskra smíðakennara
(Samþykkt á aðalfundi 15.11.2008)

1. gr.
Félagið heitir “FÉLAG ÍSLENSKRA SMÍÐAKENNARA”,
heimili þess og varnarþing skal vera í Reykjavík. Skammstafað FÍS.
  
 
2. gr.
Tilgangur félagsins er:  

 1. að auka samheldni og samvinnu smíðakennara.  
 2. að bæta hag smíðakennara, styrkja réttindi þeirra og þekkingu. 
 3. að beita sér fyrir bættri stöðu námsgreinarinnar “Hönnun og smíði”.  
 4. að beita sér fyrir að vinnuaðstaða smíðakennara í skólum landsins fari í öllu eftir lögum um vinnuvernd, bæði er snertir búnað húsnæðis og skipulag. Einnig er varðar tæki og vélar. Að auki, að vélar og tæki sem ekki eru ætluð nemendum verði lykil læst.

3. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því:

 1. að stuðla að fundarhaldi og fræðslustarfi
 2. að standa vörð um stöðu námsgreinarinnar og gæta þess að hún standi jafnfætis öðrum námsgreinum
 3. að beita sér fyrir framhaldsnámi og endurmenntun fyrir hönnunar- og smíðakennara
 4. að fylgjast með og kynna nýjungar í greininni
 5. að gefa út leiðbeinandi upplýsingar um eðlilega stærð og búnað skólastofa
 6. að beita sér fyrir bættum kjörum hönnunar- og smíðakennara og séu þau a.m.k. jafn góð bestu kjörum annarra kennara
 7. að stuðla að útgáfustarfssemi t.d. með því að halda úti vefsíðu með hagnýtu upplýsingaefni fyrir kennara í hönnun og smíði.

4. gr.
Félagsmenn

Félagsmenn geta þeir verið sem kenna námsgreinina ”Hönnun og smíði” og/eða hafa starfað sem smíðakennarar. Enda eru þeir skuldlausir við félagið.
 
5. gr.
Ársreikningar

Reikningsár skal miða við ár í senn milli aðalfunda. Reikningar skulu vera yfirfarnir af félagskjörnum endurskoðendum og liggja frammi á  aðalfundi. 
 
6. gr.
Aðalfundur

Aðalfund skal halda fyrir nóvemberlok ár hvert. Til hans skal boða bréflega eða með tölvupósti og í fréttabréfi á vefsíðu félagsins með tveggja vikna fyrirvara. Félagsmenn sem ekki geta nýtt sér tölvupóst og vefsíðu þurfa að tilkynna það til stjórnar.  Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Störf aðalfundar eru m.a.:

 1. Skýrsla stjórnar til afgreiðslu
 2. Framlagðir endurskoðaðir reikningar til afgreiðslu
 3. Tillaga stjórnar um félagsgjöld næsta starfsár
 4. Kosning í stjórn og varastjórn
 5. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara
 6. Tillögur og lagabreytingar afgreiddar
 7. Önnur mál

7. gr.
Stjórn félagsins  

 1. Stjórnina skipa 5 aðalmenn og 2 til vara, Formaður og varamenn skulu kosnir til árs í senn, en aðrir til tveggja ára. Þannig, að á hverjum aðalfundi skulu vera kosnir tveir aðalmenn til tveggja ára en fyrir eru í stjórn tveir aðalmenn er hlutu kosningu til tveggja ára frá árinu áður
 2. Stjórnarmenn skipta með sér verkum, aðrir en formaður. Varaformaður, ritari, gjaldkeri og umsjónarmanður félagatals
 3. Fyrsta stjórnarfund, skal halda innan 15 daga frá aðalfundi

8. gr.
Fastar starfsnefndir

 1. Stjórnin skipar uppstillingarnefnd eigi síðar er 3 vikum fyrir aðalfund. Skulu 2 félagsmenn skipaðir í nefndina ásamt einum stjórnarmanni. Starfsvið uppstillingarnefndar skal vera að koma með tillögu um menn í stjórn.
 2. Stjórnin skipar í aðrar starfsnefndir eftir því sem þurfa þykir.

9. gr.
Afl atkvæða

Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála á fundum félagsins. Tvo þriðju atkvæða þarf þó til að breyta samþykktum félagsins, enda sé það gert á lögmætum aðalfundi. 

10. gr.
Tillögur og  lagabreytingar

Tillögur og  lagabreytingar skal senda með aðalfundarboði.

11. gr.
Veitingar á aðalfundi

Skal veita kaffi eða aðra sambærilega drykki á aðalfundum ásamt tilhlýðilegu og hollu ljúfmeti.

 

 Félag íslenskra smíðakennara - Laufásvegi 81 - 101 Reykjavík - kt. 490971-0179
Um vefinn - Ábendingar - Forsíða